Áfallastreituröskun er geðröskun sem getur komið fram hjá fólki eftir að hafa upplifað eða orðið vitni að áfalli eða áföllum. Áfallastreita er í raun sterk streituviðbrögð sem getur komið í kjölfar áfalla á borð við náttúruhamfara, alvarlegra slysa, hryðjuverka, stríðsátaka, nauðgunar eða annars ofbeldis gagnvart sjálfum sér eða öðrum. Viðbrögð einstaklings við áfalli einkennast af hjálparleysi, ótta og hryllingi og geta valdið mikilli vanlíðan í kjölfarið sem erfitt getur verið að takast á við.
Sem betur fer ná flestir sem að verða fyrir áföllum ná að vinna úr þeim með eðlilegum hætti en í sumum tilfellum nær heilinn ekki að vinna úr áfallinu og þá getur verið að viðkomandi þurfi á aðstoð fagaðila að halda. Þungi og alvarleiki áfallsins hefur áhrif á hversu vel okkur tekst að vinna úr áfallinu ásamt öðrum þáttum eins og stuðningur fjölskyldu og vina.
Langvarandi álag eða steita eins og heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og einelti geta einnig leitt til áfallastreitu. Í slíkum tilfellum er vandinn oft mun flóknari og þá getur viðkomandi þurft á langtíma sálfræðimeðferð að halda.
Einkenni áfallastreituröskunar falla í fjóra flokka. Sérstök einkenni geta verið mismunandi í alvarleika.
1. Endurteknar truflandi hugsanir og ósjálfráðar minningar; óþægilegir draumar eða endurupplifanir frá áfalla atburðinum. Endurupplifanirnar geta verið það raunverulegar að fólk telur sig aftur vera að upplifa áfallið og sér það ljóslifandi fyrir sér.
2. Forðun á því sem minnir á áfallið og getur falið í sér að forðast fólk, staði, athafnir, hluti og aðstæður sem vekja upp óþægilegar minningar. Fólk reynir að forðast að muna eða hugsa um áfallið og getur sýnt mikið viðnám gagnvart því að tala um það sem gerðist eða hvernig þeim líður um það.
3. Neikvæðar hugsanir og tilfinningar sem geta falið í sér breytt viðhorf og trú um sjálfan sig eða aðra (t.d. „Ég er slæm(ur),“ „Engum er treystandi“). Viðvarandi ótta, hrylling, reiði, sektarkennd eða skömm; minni áhuga á athöfnum sem áður voru ánægjulegar; eða að það upplifir sig vera fjarlægt eða úr tenglsum við aðra.
4. Ofurárvekni sem getur falist í því að vera auðveldlega pirraður/pirruð og reiðast auðveldlega. Einstaklingar geta sýnt af sér kæruleysislega eða óábyrga hegðun. Verða auðveldlega brugðið og eru oft eins og „hengdir upp á þráð“ og geta átt í erfiðleikum með að einbeita sér eða að sofa.
Margir þeir sem að verða fyrir áföllum upplifa einkenni eins og lýst er hér að ofan í nokkra daga eftir að áfallið á sér stað sem er eðlilegt. Til að einstaklingur sé greindur með áfallastreitu þurfa einkennin þó að vera til staðar í a.m.k. einn mánuð. Í mörgum tilfellum hafa einkennin verið viðvarandi oft mánuðum og stundum árum saman. Sumir einstaklingar fá einkenni aðeins seinna oft innan þriggja mánaða frá áfallinu en einkenni geta einnig komið fram mun síðar. Hjá fólki með áfallastreitu valda einkennin verulegri vanlíðan og yfirleitt vandamála í dagsdaglegu lífi og leiða oft til annara vandamála svo sem þunglyndis, kvíða, áfengis eða vímuefnavanda, minnistruflana og annara líkamlegra og andlegra veikinda