Sjálfsmat vísar til þess hvernig við hugsum um okkur sjálf. Til eru önnur sambærileg hugtök eins og sjálfstraust og sjálfsmynd sem einnig vísa í hvaða mat við leggjum á okkur og hvers virði okkur finnst við vera. Lágt sjálfsmat kemur fram sem skortur á sjálfstrausti, að efast um eigin getu og hafa neikvæðar hugsanir um sjálfan sig.

Sjálfsmat er á skala og getur verið frá mjög lágu sjálfsmati upp í mjög hátt sjálfsmat og allt þar á milli. Þegar sjálfsmat á í hlut er mikilvægt að hafa í huga að bæði hátt og lágt sjálfsmat getur verið tilfinningalega og félagslega skaðlegt fyrir einstaklinginn en ákjósanlegast er að sjálfsmat sé í kringum miðju skalans.

Hvar sjálfsmat okkar liggur hefur áhrif á hvernig við upplifum okkur sjálf og hvernig við högum lífi okkar. Sem dæmi að þá hefur það sýnt sig að einstaklingar með mikið sjálfsálit einblína á vöxt og framför en fólk með lítið sjálfsálit einbeitir sér að því að gera ekki mistök í lífinu. 

Þeir sem eru með lágt sjálfsmat eru í aukinni áhættu á að fá þunglyndi og kvíða, sérstaklega félagskvíða. Einstaklingar með lágt sjálfsmat eru líklegri til að einblína á það neikvæða og túlka aðstæður og ummæli á neikvæðan hátt sem getur gert samskipti þeirra við aðra erfið. Þeim líður oft óþægilega, eru feimin og jafnvel tortryggin gagnvart öðrum sem veldur því að þeim líður illa, verða döpur, pirruð eða upplifa skömm.

Einkenni lágs sjálfsmats eru meðal annars:

– Léleg sjálfsmynd

– Skortur á sjálfstrausti

– Óöruggi

– Neikvæðni

– Óhamingja

– Léleg félagsfærni

– Reiði / fjandsemi

– Áhugaleysi

– Þunglyndi

– Kvíði

– Erfiðleikar með að taka frumkvæði

– Að draga sig til hlés / feimni / láta lítið fyrir sér fara

– Léleg samskipti

– Taka ekki áhættu

 

Margir þættir geta haft áhrif á hvernig sjálfsmat okkar þróast og byrjar það strax að mótast í barnæsku. Þeir þættir sem að geta dregið úr og stuðlað að lágu sjálfsmati eru til dæmis:

– Að alast upp hjá foreldrum/forsjáraðilum sem eru neikvæðir og gagnrýnandi

– Vanræksla

– Alast upp hjá foreldrum/forsjáraðilum sem eru í stöðugum deilum sín á milli.

– Einelti

– Áföll

– Trúarbrögð sem ýta undir skömm og/eða sektarkennd

– Samfélag og samfélagsmiðlar