Persónuverndar og notendaskilmálar

Persónuverndarstefna þessi er sett fram af Áfalla og Sálfræðimiðstöðin ehf., kt. 590802-3440, Hamraborg 11, 200 Kópavogur (hér eftir „ÁSM“). Tilgangurinn hennar er að upplýsa skjólstæðinga ÁSM um varðveislu persónuverndarganga sem og þeirra sjúkragagna sem aflað er á meðan meðferð stendur yfir. Stefnan er sett á grundvelli laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (hér eftir „persónuverndarlög“) ásamt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga , (GDPR, general data protection regulation). Einstaklingar sem leita til ÁSM (hér eftir „skjólstæðingar“) gera það í þeim tilgangi að sækja heilbrigðisþjónustu og njóta því enn fremur réttinda til samræmi ákvæði laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.

Heilbrigðisþjónusta

Samkvæmt 21. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 34/2012  um heilbrigðisstarfsmenn teljast sálfræðingar til heilbrigðisstarfsfólks. Allir sálfræðingar og félagsráðgjafar sem starfa hjá ÁSM eru með löggild leyfi frá embætti landlæknis ásamt því að uppfylla kröfur um endurmennt sem eru gerðar innan greinarinnar. Starfsnemar sem starfa hjá ÁSM gera það á ábyrgð heilbrigðsstarfsmanns sbr. 16. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn.

Persónuupplýsingar

Til persónuupplýsinga teljast þær upplýsingar sem hægt er að rekja beint eða óbeint aftur til einstaklings, s.s. með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna viðkomandi. Með sama hætti teljast gögn sem eru ópersónugreinanleg ekki til persónuupplýsinga og persónuverndarstefna þessi tekur ekki til slíkra gagna.

Heilsufarsupplýsingar eru þær persónuupplýsingar sem varða líkamlegt eða andlegt heilbrigði einstaklings, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu sem hann hefur fengið, og upplýsingar um lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, sbr. 3. tl 3. gr. persónuverndarlaga. Þessar heilsufarsupplýsingar ber heilbrigðisstarfsfólki að skrá í þar til gerða sjúkraskrá sem þeim er skylt að halda samkvæmt lögum nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Öll gögn sem meðferðaraðilar ÁSM afla á meðan að á meðferð stendur falla undir þessi lög.

Öflun persónuupplýsinga frá þriðja aðila er aldrei framkvæmd án undanfarandi skriflegs samþykkis skjólstæðings eða forráðamanns hans.

Varðveisla persónuupplýsinga

Varðveisla persónuupplýsinga sem og sjúkraskráa hjá ÁSM er í samræmi við við ákvæði persónuverndarlaga og laga um sjúkraskrá. ÁSM hefur gert víðtækar öryggisráðstafanir til þess að tryggja örugga varðveislu allra skráðra persónuupplýsinga. Þessar öryggisráðstafanir fela meðal annars í sér aðgangsstýringu á öllum þeim kerfum sem eru í notkun ásamt eftirliti með notkun starfsmanna á þeim kerfunum þar sem unnið er með persónuupplýsingar og þær varðveittar.

Trúnaður

Samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsfólk og lögum nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga þá eru meðferðaraðilar ÁSM bundnir trúnaði varðandi allar upplýsingar þeim er veittar á meðan að á meðferð stendur yfir. Þessi trúnaðarskylda tekur þó ekki til eftirfarandi tilvika:

  • Þegar velferð barns, fatlaðs eða aldraðs einstaklings er í húfi, þá ber starfsmanni að tillkynna það til viðeigandi yfirvalda, t.a.m. Barnaverndar.
  • Þegar grunur leikur á að þú eða annar aðili þér tengdur sé líklegur til að valda sjálfum sér eða öðrum skaða, ber starfsmanni að hafa samband við aðstandanda viðkomandi, viðeigandi stofnun eða yfirvöld.
  • Dómari getur einnig skyldað heilbrigðisstarfsmann til að veita trúnaðarupplýsingar sem vitnisburð.

Komi upp aðstæður þar sem þessar takmarkanir eiga við og upplýsingar eru látnar af hendi til þriðja aðila er skjólstæðing tilkynnt hvaða ástæða liggur til grundvallar, hvaða upplýsingar voru veittar og hver fékk aðgang að þeim, en þó að því marki sem það er heimilt samkvæmt lögum. Í neyðartilvikum er oft ekki hægt að tilkynna slíkt fyrirfram.

Ábyrgð skjólstæðinga

Skjólstæðingar bera ábyrgð á því að vera virkir þáttakendur í þeirri meðferð sem þeir sækja hjá ÁSM. Meðferðaraðilar okkar áskilja sér þann rétt að vísa skjólstæðingum annað ef þeir telja sig ekki geta veitt þá þjónustu sem skjólstæðingurinn þarf.

Forföll

Forföll skulu tilkynnt í síma 517-1718 eða í tölvupósti á mottaka@asm.is í síðasta lagi fyrir klukkan 15:00 næsta virka dag áður en viðtal á að fara fram. Ef forföll eru ekki boðuð eða þau boðuð of seint skal fullt gjald greitt fyrir viðtalstímann.

Vakin er athygli á að þegar skjóstæðingur nýtur greiðsluþáttöku hjá félagsþjónustunni eða VIRK þá tekur greiðsluþáttaka eingöngu til þeirra viðtala sem mætt er í. Skjólstæðingur ber því að fullu kostnað vegna tíma sem ekki eru nýttir og greiða skal vegna forfalla.

Það er ávallt á ábyrgð skjólstæðinga að mæta í bókaða tíma. Þrátt fyrir að ÁSM sendi út SMS áminningar til þess að minna á bókaða tíma þá liggur ábyrgðin ávallt hjá skjólstæðing falli áminningarþjónusta niður af einhverjum ástæðum.

Neyðartilvik

ÁSM rekur sálfræðiþjónustu í formi viðtalsmeðferða, teljir þú, eða einhver nákominn þér, andlega líðan þína vera með þeim hætti að hún sé alvarleg, og þoli ekki bið skal leita til slysadeildar Landspítala, göngudeildar geðdeildar Landspítala eða hringja í neyðarnúmerið 112.