Þjónusta
Hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni starfar hópur fagaðila á geðheilbrigðissviði sem er sérhæfður í mati, greiningu og meðferð geðræns og sálrænna vandamála. Notast er við gagnreyndar og viðurkenndar aðferðir í allri meðferð.
- Við sérhæfum okkur í allri almennri sálfræðiþjónustu og geðgreiningum ásamt úrvinnslu áfalla og áfallastreitu.
- Bjóðum upp á mat á sálrænum vanda í kjölfar alvarlegra áfalla eða í kjölfar erfiðrar lífsreynslu og sinnum skýrslugerð.
- Veitum bráðaþjónustu til fyrirtækja í kjölfar áfalla og veitum ráðgjöf fyrir hópa ásamt hópmeðferðum.
- Bjóðum upp á taugasálfræðilegar athuganir eins og skimun á einhverfu og greindarprófun.
- Veitum handleiðslu og þjálfun annara fagaðila og tökum að okkur að sinna nemum í starfsþjálfun.
- Höldum regluleg námskeið og fræðsluerindi fyrir einstaklinga, hópa og fyrirtæki og eru þau auglýst með góðum fyrirvara hér á heimasíðunni.
Markmið okkar er að veita þá árangursríkustu meðferð og völ er á hverju sinni.
Helstu meðferðaleiðir
Hugræn Atferlismeðferð (HAM)
Hugræn atferlismeðferð eða HAM er ein tegund sálfræðimeðferðar og miðar að því að hjálpa sjúklingum að skilja tengslin á milli hugsana, tilfinninga og hegðunar. HAM er ein útbreiddasta sálfræðimeðferðin í dag og er fjöldi rannsókna að baki sem hefur sýnt fram á gagnsemi hennar. HAM er notað til að meðhöndla margs konar sálræn vandamál og er mælt með sem fyrsta val þegar meðferða á m.a. þunglyndi, kvíða, áfallastreitu, átraskanir, félagsfælni, fíknivanda, fælni, svefnvanda o.fl..
Hugræn atferlismeðferð er yfirleitt til skamms tíma og miðast að því að hjálpa skjólstæðingum að takast á við afmarkað vandamál. Meðan á meðferð stendur lærir fólk hvernig á að bera kennsl á og breyta óhjálplegu og truflandi hugsanamynstri sem hefur neikvæð áhrif á hegðun og tilfinningar.
Grundvallaratriði hugrænnar atferlismeðferðar
Grunnhugmyndin að baki HAM er sú að hugsanir okkar og tilfinningar gegna lykilhlutverki í hegðun okkar. Til dæmis getur einstaklingur sem eyðir miklum tíma í að hugsa um flugslys, flugbrautarslys og aðra áhættu í sambandi við flug forðast alfarið flug og flugvelli sem getur leitt til ákveðina takmarkana og vandamála í tengslum við það.
Markmið hugrænnar atferlismeðferðar er að kenna sjúklingum að þó þeir geti ekki stjórnað öllum þáttum heimsins í kringum sig geta þeir náð stjórn á því hvernig þeir túlka og takast á við hluti í umhverfi sínu.
Hugræn atferlismeðferð hefur orðið sífellt vinsælli á undanförnum árum bæði hjá skjólstæðingum og meðferðaraðilum. Þar sem HAM er venjulega skammtímameðferðarúrræði, er hún oft hagkvæmari en aðrar tegundir meðferðar. HAM er einnig vel studd með fjölda rannsókna og hefur verið sýnt fram á að HAM hjálpar sjúklingum á mjög áhrifaríkan hátt að komast yfir margs konar vandamál.
Sjálfvirkar neikvæðar hugsanir
Ein megináhersla hugrænnar atferlismeðferðar er að breyta ósjálfráðum neikvæðum hugsunum sem geta stuðlað að og aukið tilfinningalega vanlíðan, þunglyndi og kvíða. Þessar neikvæðu hugsanir virðast oft spretta fram af sjálfu sér og eru teknar sem sannar og samþykktar af viðkomandi og leiða þá til óþægilegra tilfinninga sem hafa neikvæð áhrif á líðan einstaklingsins.
Í gegnum HAM ferlið skoða sjúklingar þessar hugsanir og eru hvattir til að horfa á þær út frá raunveruleikanum sem annað hvort styður við eða hrekur þessar hugsanir. Með því að gera þetta getur fólk tekið hlutlægari og raunsærri afstöðu gagnvart neikvæðum hugsunum sem hafa verið að stuðla að kvíða og þunglyndi. Með því að verða meðvituð um neikvæðar og oft óraunhæfar hugsanirnar sem valda vanlíðan, getur fólk byrjað á að stuðla að heilbrigðara hugsanamynstri sem skilar sér í bættri líðan.
Hér er myndband sem útskýrir á auðveldan hátt hvernig HAM virkar.
Hugræn úrvinnslumeðferð (CPT)
Fjöldi mismunandi aðferða eru til innan hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og ein af þeim er Hugræn úrvinnslumeðferð eða Cognitive prosessing therapy (CPT) og byggir á hugrænni atferlismeðferð. Meðferðin hefur sýnt góðan árangur í úrvinnslu áfalla og erfiðrar lífsreynslu og er yfirleitt fyrsta val þegar vinna á með áfallastreitu. Í meðferðinni er tekið á þeirri trú fólks sem tengist áfallinu. Það er trú þess varðandi sjálft sig, annað fólk og umheiminn. Hugræn atferlismeðferð gengur út á að kenna fólki að skoða hugsanir sínar, skemu og trú á kerfisbundin hátt með aðstoð heimaverkefna og æfinga.
Í hugrænni úrvinnslumeðferð byrjar hugræn vinna á að fræða fólk um hvernig áfallastreita getur myndast og hvernig hægt er að vinna úr þeim þannig að þau hætti að hafa áhrif á líðan og daglegt líf. Farið er ítarlega ofan í áfallið, hvaða áhrif það hafði á trú þess um sjálft sig, aðra og umheiminn. Þá er einnig stuðst við heimaverkefni þar sem fólk er beðið að skrá atburði, hugsanir eða líðan daglegs lífs sem valda þeim óþægindum. Út frá þeim upplýsingum sem koma fram í lýsingu áfalls og heimaverkefnum er síðan leitast við að finna þær hugrænu stíflur sem hamla bata viðkomandi og skora þær á hólm.
Markmið hugrænnar úrvinnslumeðferðar er að leiðbeina fólki til að uppgötva sjálft mótsagnakenndar og bjagaðar hugsanir sínar sem viðhalda áfallastreitueinkennum þess. Hornsteinn meðferðarinnar er notkun sókratískra spurninga sem ýta undir breytingar á hugsun fólks og fá það til að efast um og skoða bjagaðar hugsanir sínar, lífsreglur og kjarnaviðhorf á hólm. Þegar lengra er komið í meðferð er fólki kennt að nota slíkar spurningar sjálft og fólk lærir að taka meiri þátt í eigin bata.
Eye Movement Desensitization and Reprocessing (EMDR)
EMDR er sálfræðileg meðferð sem þróuð var til að vinna úr afleiðingum áfalla. Meðferðin nýtir sér ýmsa þætti úr öðrum eldri, árangursríkum meðferðarformum eins og hugrænni atferlismeðferð og dýnamískum meðferðarformum en er jafnframt einsök meðferðarnálgun. EMDR meðferð snýst um úrvinnslu upplýsinga, svo sem erfiðra minninga, hugsana og tilfinninga líkt og hugræn úrvinnslumeðferð.
Venjulega vinnur einstaklingurinn sjálfkrafa úr erfiðri reynslu. Í sumum tilvikum þegar reynslan er yfirþyrmandi eða áföll endurtaka sig, getur farið svo að ekki næst að vinna úr áfallinu. Slík óuppgerð áföll og minningar um þau geta varðveist í nær upprunalegu formi í heilanum. Minningarnar eiga það síðan til að hafa neikvæð áhrif á hegðun og líðan einkum ef viðkomandi upplifir eitthvað sem minnir á upphaflegu reynsluna.
EMDR meðferð samanstendur af átta hlutum þar sem unnið er með fortíð, nútíð og framtíð. Unnið er með minningar úr fortíð sem skýra afhverju einstaklingurinn finnur fyrir óþægilegum tilfinningum, viðhorfum og líkamlegum einkennum í daglegu lífi í nútíðinni. EMDR gerir það að verkum að minningarnar eru skráðar á nýjan hátt og valda einstaklingnum ekki lengur vanlíðan, viðhorf breytast og líkamlegar upplifanir tengdar minningunum hverfa. Á svipaðan hátt er unnið með málefni er tengjast nútíð og bjargráð til framtíðar eru virkjuð.
EMDR er venjulega einstaklingsmeðferð. Þegar ákveðið hefur verið með hvaða minningu skuli vinna með er minningin metin kerfisbundið áður en úrvinnsla hefst. Í úrvinnslunni eru notaðar augnhreyfingar eða annað tvíhliða áreiti sem er sérstakt fyrir EMDR. Stafirnir EM í EMDR standa fyrir Eye Movements eða augnhreyfingar.
Í úrvinnslunni skoðar skjólstæðingur minninguna frá ýmsum hliðum og hugsanir og tilfinningar henni tengdar. Inn á milli hreyfir skjólstæðingur augun til að fylgjast með taktföstum handahreyfingum meðferðaraðila innan sjónsviðs skjólstæðings. Úrvinnslan getur verið þungbær í upphafi en óþægindin minnka þegar á líður og upplifun minningarinnar fer að breytast um leið og hún fær nýja merkingu og tengist nýjum hugsunum og tilfinningum. Þegar um einn tiltölulega einfaldan atburð er að ræða nægir oft einn úrvinnslutími. Þegar minningin eða áföllin eru flókin, mörg eða ná yfir langan tíma, þarf fleiri meðferðartíma.
EMDR er fyrir fólk sem orðið hefur fyrir erfiðri reynslu, upplifað stór eða smá áföll sem trufla líf þess mánuðum og jafnvel árum saman eftir að atvikin áttu sér stað. EMDR hefur einnig reynst vel við meðferð annarra vandamála, eins og verkkvíða, lélegrar sjálfsmyndar, einelti, fælni og annars konar vanda sem tengst getur áföllum.
Hér er stutt vídeó um hvernig EMDR meðferð virkar.
Tekið frá https://emdr.is/ þar sem hægt er að fá frekari upplýsingar um EMDR.
Acceptance and Commitment Therapy (ACT)
ACT er viðurkennd og gagnreynd sálfræðimeðferð sem byggir á hefðbundinni hugrænni atferlismeðferð. ACT notast við núvitund og aðferðir til að sættast við og samþykkja aðstæður eins og þær eru ásamt skuldbindingum og aðferðum til að breyta hegðun.
Markmiðið er að auka meðvitund í núinu til að geta tekið eftir hvað aðstæður hafa að bjóða upp á og út frá því breytt eða haldið aftur af hegðun sem ákveðið hefur verið að vinna að. Einstaklingar læra að hætta að forðast, afneita og berjast við innri tilfinningar sínar og í staðinn sætta sig við að þessar tilfinningar eru viðeigandi viðbrögð við ákveðnum aðstæðum sem ættu ekki að koma í veg fyrir að þeir haldi áfram að lifa lífi sínu. Með þessum skilningi byrja einstaklingar að takast á við sín vandamál og skuldbinda sig til að gera nauðsynlegar breytingar á hegðun sinni, óháð því hvað er að gerast í lífi þeirra, og hvernig þeim líður varðandi það.
ACT er notað til að vinna á einkennum kvíða og þá sér í lagi vinnustaðakvíða, prófkvíða og félagskvíða ásamt þunglyndi, áráttu- og þráhyggjuröskun og geðklofa. ACT hefur líka verið notað með góðum árangri við krónískum verkjum, áfengis- og vímuefnavanda og áunninni sykursýki.
Kenningin á bak við ACT er sú að það sé ekki aðeins árangurslaust, heldur oft mótsagnakennt, að reyna að stjórna sársaukafullum tilfinningum eða erfiðri lífsreynslu, því að bæling á þessum tilfinningum leiðir að lokum til meiri vanlíðan. ACT gengur út frá því að það séu aðrir fullgildir möguleikar í boði hverju sinni sem hægt er að taka eftir til að reyna að breyta því hvernig einstaklingur hugsar. Það felur í sér núvitundaræfingar, beina athygli að persónulegum gildum og skuldbinding til aðgerða. Með því að taka skref til að breyta hegðun á sama tíma og læra að sætta sig við erfiða lífreynslu geta einstaklingar að lokum breytt viðhorfi og tilfinningalegri líðan sinni.
Díalektísk atferlismeðferð (DBT)
Díalektísk atferlismeðferð (Dialectical Behavior Therapy (DBT)) er ein aðferð hugrænnar atferlismeðferðar (HAM). DBT er viðurkennd og gagnreynd meðferð sem hefur skilað árangri við meðhöndlun ýmis konar sálrænum vanda.
Það eru margar rannsóknir sem sýna árangur DBT. DBT hefur reynst sérstaklega árangursríkt þegar meðferða á einstaklinga með jaðarpersónuleikaröskun, áfallastreitueinkenni og þá sem eru með sjálfsskaðandi hegðun eða eru að íhuga sjálfsvíg.
DBT byggir á þeirri forsendu að vandamálin sem að skjólstæðingar er að glíma við séu vegna skorts á ákveðinni færni og er markmið meðferðarinn að auka færni einstaklingsins í þeim aðstæðum sem að hana skortir. DBT viðurkennir einnig þá staðreynd að flestir gera það besta sem þeir mögulega geta gert hverju sinni með þá færni sem þeir hafa.
Kenningin að baki nálguninni er byggð á þeirri hugmynd að sumt fólk sé viðkvæmara fyrir og bregðast við á mun sterkari hátt en eðlilegt telst þegar kemur að ákveðnum tilfinningalegum aðstæðum. Þetta kemur helst fram í samböndum sem fela í sér rómantík, fjölskyldu- eða vinasambönd.
Fjórir þættir eru styrktir í DBT:
1. Núvitund
2. Samskipti milli einstaklinga
3. Tilfinningastjórnun
4. Óvissuþol
Færni í núvitund snýst um að þróa sjálfsvitund og lifa á þessari stundu. Núvitund kennir tækni sem miðar að meiri innri ró og meðvitund um hin skynsamlegan huga, tilfinningalega huga og vitra huga.
Aukin samskiptafærni á milli einstaklinga hjálpar einstaklingum að verða færari í samskiptum, sérstaklega þeim sem fela í sér ágreining af einhverju tagi.
Aukin færni í tilfinningastjórnun hjálpar einstaklingum við að verða betri í að skilja og takast á við ákafar tilfinningar. Einstaklingar læra hvernig tilfinningar virka, samband milli túlkunar og samsvarandi tilfinninga, hvernig líkaminn bregst við og þeim hvötum sem að fylgja.
Óvissuþol er í grundvallaratriðum sú hæfni sem þarf til að komast í gegnum krísu án þess að gera illt verra. Þetta hjálpar til við að byggja upp seiglu bæði með því að samþykkja og dæma ekki á meðan gengið er í gegnum erfileikana.
Aðrar gagnreyndar meðferðaleiðir eru einnig notaðar samhliða eftir því sem við á.