Námskeið á næstunni

Námskeið á næstunni

Þessi námskeið og fræðslukvöld verða í boði hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni á vorönn og verður skráning í þau auglýst sérstaklega.

23. mars Lágt sjálfsmatHópmeðferð

Upplýsingar: námskeiðið er 9 vikur og kennt er einu sinni í viku, 90 mín í senn. Fjöldi þátttakanda er 10-12 manns.  Markmið  námskeiðsins er að vinna að bættu sjálfsmati þáttakanda með því að skoða kjarnaviðhorf og lífsreglur og takast á við vítahringi sjálfsgagnrýni.

  Umsjón: Lilja Dís Ragnarsdóttir og Tinna Jóhönnudóttir

1.apríl  HAM við Kvíða og streitustjórnunHópmeðferð

Upplýsingar: námskeiðið er 6 vikur og kennt er einu sinni viku, 60 mín í senn. Fjöldi þátttakenda er 10-12. Markmið námskeiðsins er að   fara yfir helstu einkenni kvíða, hvernig hann viðhelst og hvernig hægt er að ná tökum á honum með gagnlegum aðferðum til   streitustjórnunar. Einnig verður tekist á við frestunaráráttu sem er algegnur fylgifiskur kvíða.

  Umsjón: Lilja Dís Ragnarsdóttir og Tómas Hermannsson

14. maí Fræðslukvöld um áföll og áfallastreitu

  Umsjón: Sjöfn Evertsdóttir

24. ágúst Áföll í æskuHópmeðferð

Upplýsingar: námskeiðið er í 9 vikur og kennt er tvisvar í viku, 90   mín í senn. Fjöldi þátttakanda er 10. Markmið námskeiðsins er að   vinna úr andlegum afleiðingum áfalla og erfiðrar lífsreynslu í æsku   og draga úr áhrifum þeirra á daglegt líf og auka lífsgæði.

  Umsjón: Lilja Dís Ragnarsdóttir og Tinna Jóhönnudóttir   Handleiðsla og yfirumsjón Sjöfn Evertsdóttir

5 leiðir að vellíðan

5 leiðir að vellíðan

Allir vilja upplifa vellíðan í eigin lífi. Hér fyrir neðan má finna fimm einföld ráð til þess, sem byggja á rannsóknum um þá þætti sem skipta mestu máli fyrir hamingju og lífsánægju:

 

1. Myndaðu tengsl

Myndaðu tengsl við fólkið í kringum þig, fjölskyldu þína, vini, samstarfsfólk og nágranna. Ræktaðu tengslin heima hjá þér, í vinnunni, í skólanum og í nánasta umhverfi þínu. Líttu á þessi tengsl sem hornsteina lífs þíns og gefðu þér tíma til að hlúa að þeim. Að byggja upp þessi tengsl styrkir þig og auðgar líf þitt á hverjum degi.

Leiðir til að efla tengslin eru fjölmargar og í raun bara hugmyndaflugið sem heftir fólk í því. Tilvalið er að gera eitthvað saman og skapa með því góðar minningar. Það eflir líka tengslin að hjálpast að við þau verkefni sem fyrir liggja.

 

2. Hreyfðu þig

Farðu út að ganga eða í sund. Njóttu útivistar. Hjólaðu. Farðu í leiki. Ræktaðu garðinn. Dansaðu. Hreyfing færir þér vellíðan. Það er mikilvægasta er að finna hreyfinu sem þú hefur gaman af og hentar líkamlegu ástandi þínu og getu.

Það eykur líkurnar á að það takist ef þú færð vin eða fjölskyldumeðlim til að vera með þér í hreyfingunni. Flestum finnst bæði skemmtilegra og auðveldara að hreyfa sig með öðrum. Það eflir líka tengslin og þannig má segja að tvær flugur séu slegnar í sama högginu.

 

  1. Taktu eftir

Haltu í forvitnina. Taktu eftir hinu óvenjulega. Veittu árstíðabreytingum athygli. Njóttu augnabliksins, hvort sem þú ert úti að ganga, að borða hádegismat eða tala við vini þína.

Vertu vakandi fyrir veröldinni í kringum þig og hvernig þér líður. Að leiða hugann að því sem þú upplifir hjálpar þér að meta það sem skiptir þig máli.

 

  1. Haltu áfram að læra

Prófaðu eitthvað nýtt. Rifjaðu upp gamalt áhugamál. Skráðu þig á námskeið. Taktu að þér ný verkefni. Lærðu að spila á hljóðfæri eða elda uppáhaldsmatinn þinn.

Settu þér markmið sem þú munt hafa gaman af að ná. Það er skemmtilegt að læra nýja hluti og eykur sjálfstraustið.

 

  1. Gefðu af þér

Gerðu eitthvað fallegt fyrir vil þinn eða ókunnuga manneskju. Sýndu þakklæti. Brostu. Gefðu af tíma þínum. Taktu þátt í félags- eða sjálfboðastarfi.

Fjölmörg góðgerðafélög eru rekin af sjálfboðaliðum og innan íþróttafélaganna er alltaf þörf fyrir vel meinandi sjálfboðaliða. Hikaðu ekki við að taka að þér verkefni fyrir félagsskap sem þú tengist eða hefur áhuga á.

Horfðu út á við og líka inn á við. Að líta á sig og hamingju sína sem hluta af stærra samhengi getur verið einstaklega gefandi og eflir tengslin við fólkið í kringum þig.

 

Hvernig urðu leiðirnar fimm til?

Árið 2008 fól vinnuhópur á vegum bresku ríkisstjórnarinnar, Foresight‘s Mental Capital and Wellbeing Project, samtökunum New Economic Foundation að fara yfir rannsóknir á áhrifaþáttum vellíðanar og finna gagnreyndar aðferðir til að auka vellíðan og lífshamingju.

Samtökin fóru yfir rannsóknir ríflega 400 rannsakenda víða um heim og tóku saman þær aðferðir sem höfðu sterkastan rannsóknargrunn að baki. Fimm leiðir að vellíðan, eða „Five Ways to Wellbeing“, eru afrakstur þeirrar vinnu. Rannsóknir sýna að jafnvel lítilsháttar aukning á vellíðan getur átt þátt í að draga úr sumum geðrænum vandamálum og hjálpað fólki að blómstra í lífinu.

Úrvinnsl­an eft­ir að sagt er frá

Úrvinnsl­an eft­ir að sagt er frá

Bylt­ing­in kennd við „Ég líka“ eða „Me too“, þar sem kon­ur og karl­ar um all­an heim stigu fram á sam­fé­lags­miðlum og í fjöl­miðlum og sögðu frá kyn­ferðis­legri áreitni og of­beldi, er að breyta heim­in­um. Viðhorf fjölda fólks til kyn­ferðis­legr­ar áreitni hef­ur breyst á aðeins ör­fá­um vik­um þar sem það skil­ur af­leiðing­ar og al­vöru at­vika sem hafa í gegn­um ald­irn­ar verið sagðar létt­væg­ar. Þeir sem hafa orðið fyr­ir kyn­ferðis­legri áreitni upp­lifa líka bylt­ingu innra með sér. Það er ekki þeirra að „harka af sér“, þegja og líta á þetta sem eðli­leg­an þátt í til­ver­unni.

Enn á eft­ir að sjá hvort þessi vit­und­ar­vakn­ing verður til þess að kyn­ferðis­leg áreitni minnk­ar. Þeir sem hafa stigið fram og sagt frá upp­lifa líka mis­mun­andi til­finn­ing­ar. Eru þeir að segja frá ein­hvers kon­ar lausn?

„Það er alltaf per­sónu­bundið hvernig fólk upp­lif­ir það að segja frá. Það get­ur vissu­lega verið létt­ir fyr­ir þolanda en einnig ýft upp erfiðar minn­ing­ar, gjarn­an háð því hvar fólk er statt í úr­vinnslu á því sem fyr­ir það kom,“ seg­ir Sjöfn Everts­dótt­ir, sál­fræðing­ur hjá Áfalla- og sál­fræðimiðstöðinni.

„En þegar fólk upp­lif­ir að það að segja frá ýfi upp til­finn­ing­ar er það gjarn­an vegna þess að dregið hef­ur úr forðun, at­b­urður­inn fær­ist nær, og marg­ir upp­lifa að líðan sín versni við það. En minn­ing­arn­ar hafa verið þarna allt frá at­b­urðinum, fólk hef­ur bara náð að forðast þær. Svo kem­ur að þeim tíma­punkti að fólk nær því ekki leng­ur og opn­ar á það, oft með þeim sárs­auka eða létti sem því get­ur fylgt.“

Sjöfn seg­ir að þegar fólk opn­ar á og meðtek­ur hvað það hef­ur upp­lifað fari það um leið að tengja bet­ur sam­an þær and­legu af­leiðing­ar sem ákveðin at­vik og of­beldi hafa haft á líf þess.

„Sum­ir eru að viður­kenna það fyr­ir sér í fyrsta sinn, því ein af af­leiðing­um kyn­ferðisof­beld­is, og það sem viðheld­ur gjarn­an langvar­andi sál­ræn­um vanda í kjöl­farið, er af­neit­un­in; það vill eng­inn verða fyr­ir kyn­ferðisof­beldi og því forðast fólk gjarn­an að „rifja upp at­vikið“.“

Af­leiðing­ar sem fólk er ekki búið að tengja sam­an við það sem það hef­ur orðið fyr­ir í líf­inu geta verið bæði and­leg­ar og lík­am­leg­ar, en tíðni áfall­a­streiturösk­un­ar er t.d. hæst meðal þolenda kyn­ferðisof­beld­is.

Marg­ir upp­lifa létti

Sjöfn seg­ir að það hvernig nærum­hverfið tek­ur svo við þeim upp­lýs­ing­um sem fólk gef­ur, bæði nán­asta um­hverfi og svo al­mennt, geti líka haft mik­il áhrif á það hvernig fólk upp­lif­ir það að segja frá og því sé mik­il­vægt að veita svig­rúm.

„Þetta eru mál­efni sem í eðli sínu mega aldrei vera leynd­ar­mál, það á að segja frá. En þau eru engu að síður prívat­mál, það er að segja þoland­inn verður að geta stjórnað því hverj­ir fá að vita. Hann verður að finna að hann hafi stjórn á aðstæðum því að eðli kyn­ferðis­brota er að valdið er tekið af þér. Valdið til að ráða því hvað gert er við eig­in lík­ama. Við verðum að passa að sú valdníðsla og það of­beldi sem í því felst haldi ekki áfram með því að taka stjórn­ina af þoland­an­um þegar hann ætl­ar að fara að greina frá.

En um leið og greint er frá t.d. á opn­um sam­skiptamiðlum er stjórn umræðunn­ar úr hönd­um þess sem frá greindi og því mik­il­vægt að huga bæði að mögu­leg­um já­kvæðum sem nei­kvæðum af­leiðing­um þess. Það er meðal ann­ars spurn­ing hversu stór­um hluta viðkom­andi vill deila af þess­ari lífs­reynslu og með hverj­um, því það get­ur haft nei­kvæðar af­leiðing­ar fyr­ir þolanda að upp­lifa að hafa opnað hjarta sitt upp á gátt fyr­ir fólki sem hann vildi ekki opna sig fyr­ir t.d. vegna þrýst­ings eða vegna þess að viðkom­andi finnst að hann eða hún eigi eða þurfi að segja allt.“

Sjöfn bend­ir á að sam­tök­in Rót­in hafi gefið út bæk­ling­inn „Ef fjöl­miðlar hafa sam­band“ sem gagn­legt sé að lesa fyr­ir þolend­ur of­beld­is­glæpa áður en t.d. greint er frá á opn­um sam­fé­lags­miðlum eða í viðtöl­um.

„Þá skipta viðtök­ur nærum­hverf­is miklu máli. Ef viðkom­andi er ekki trúað get­ur hann end­urupp­lifað að virði hans sé ekk­ert, það sem kom fyr­ir skipti ekki máli eða sé létt­vægt. Þá get­ur oft skap­ast mik­il tog­streita og aukið álag í nærum­hverfi þegar fólk loks þorir að opna á erfiða reynslu eins og kyn­ferðisof­beldi eða áreitni. Tog­streit­an skap­ast í sum­um til­fell­um þegar greint frá að sá sem áreitti kyn­ferðis­lega eða braut á viðkom­andi er fjöl­skyldumeðlim­ur og fjöl­skyld­ur skipt­ast þá jafn­vel í tvo hópa; þá sem segja að þetta geti ekki hafa gerst og hina sem trúa þoland­an­um.“

Þrátt fyr­ir að það sé afar per­sónu­bundið hvað fólk upp­lif­ir við það að segja frá og frá­sögn­in hafi mis­mun­andi af­leiðing­ar eiga marg­ir það sam­eig­in­legt að upp­lifa mik­inn létti.

„Frá­sögn­in sem slík get­ur verið ákveðin lausn t.d. frá sekt­ar­kennd­inni. Um að maður hefði átt að gera eitt­hvað öðru­vísi, bregðast við á ann­an hátt. En það má ekki rugla sam­an þeim létti að hafa opnað á at­b­urðinn og að hafa fengið úr­vinnslu á at­b­urðinum. Lausn þess sál­ræna vanda sem þolend­ur finna oft fyr­ir felst ekki ein og sér í því að opna á umræðuna, en er hins veg­ar mik­il­væg­asta skrefið í átt að úr­vinnslu og bata, því þögn­in kem­ur í veg fyr­ir að viðkom­andi fái þann stuðning og hjálp sem þörf er.“

Ekki öll­um sem líður bet­ur

Hver eru næstu skref fyr­ir mann­eskju í þeim spor­um sem seg­ir frá og upp­lif­ir ekki þann sál­ar­frið sem hún hélt að hún myndi fá?
„Ef það hef­ur áhrif á dag­legt líf og and­lega líðan myndi ég alltaf mæla með gagn­reyndri sál­fræðimeðferð, svo sem áfallamiðaðri hug­rænni at­ferl­is­meðferð, ÁHAM, sem mælt er með sam­kvæmt klín­ísk­um leiðbein­ing­um sem fyrsta meðferðarúr­ræði við áföll­um. Hafi sál­ræn ein­kenni verið til staðar í þrjá mánuði eða leng­ur eft­ir áfall er mælt með ÁHAM og EMDR (eye mo­vement de­sensitisati­on and reprocess­ing) meðferð. Síðan er nátt­úr­lega líka hægt að leita stuðnings hjá sam­tök­um eins og Stíga­mót­um og Dreka­slóð, en ef vand­inn er viðvar­andi og hef­ur nei­kvæð áhrif á gæði dag­legs lífs er gagn­reynd sál­fræðimeðferð þörf.“

Í umræðunni um sam­fé­lags­miðla og kyn­ferðis­lega áreitni og of­beldi seg­ir Sjöfn tvennt afar brýnt.

„Það er ofsa­lega mik­il­vægt að umræða um þetta sé á sam­fé­lags­miðlun­um, þannig að fólk viti að þetta er ekki í lagi, eitt­hvað sem má ekki og er ekki ásætt­an­legt á neinn hátt. Átakið Met­oo skipt­ir gríðarlega miklu máli og það er vald­efl­andi fyr­ir marga þolend­ur að koma fram og segja: Þetta kom fyr­ir mig.

En það er ekki þar með sagt að öll­um þolend­um muni líða bet­ur við að gera það, það er per­sónu­bundið og taka þarf til­lit til þess. Það eru ekki all­ir til­bún­ir til þess að segja frá ein­hverju og þurfa að vera und­ir það bún­ir að vera kannski á kass­an­um í Bón­us og vera spurðir út í þá lífs­reynslu sem þeir deildu. Þá er það að ger­ast í aðstæðum sem þú hef­ur ekki stjórn á og orðið meira en að sitja við tölv­una þar sem þú ert við stjórn­völ­inn.“

Fjöldi fólks hef­ur leitað til Stíga­móta í kjöl­far átaks­ins #met­oo að því er fram hef­ur komið í frétt­um.

„Fólk er að upp­götva að það hef­ur af­skrifað margt sem eðli­legt sem er það ekki í raun. Fyr­ir nokkr­um árum var einelt­isum­ræðan á svipuðum stað. Þú átt­ir bara að harka af þér, þetta var bara ein­hver stríðni. Í dag vit­um við um al­var­leika lang­tíma­áhrifa einelt­is. Nú er ein­hvern veg­inn búið að gefa fólki frelsi til að tjá sig um kyn­ferðis­lega áreitni og átta sig á að það er ekki eitt með sín­ar upp­lif­an­ir og þarf ekki að sætta sig við slíka hegðun leng­ur með þögn.“


Greinin birtist á mbl.is 12.11.2017

Áfalla- og sálfræðimistöðin undirritar samning við Slökkvilið Höfuðborgarsvæðinsins

Áfalla- og sálfræðimistöðin undirritar samning við Slökkvilið Höfuðborgarsvæðinsins

Áfalla- og sálfræðimiðstöðin undirritaði þann 12. júlí 2015 þjónustusamning við Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins. Áfalla- og sálfræðimiðstöðin mun veita starfsmönnum Slökkviliðsins og fjölskyldum þeirra alla almenna sálfræðiaðstoð ásamt því að halda regluleg fræðslunámskeið fyrir starfsfólk.

Hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni starfa sálfræðingar sem sérhæft hafa sig í úrvinnslu áfalla, auk almennri sálfræðiþjónustu. Á stofunni starfa einnig geðlæknar og félagsráðgjafi og lögð er áhersla á að bjóða upp á þverfaglega þjónustu í þeim tilfellum sem þess þarf.

Starfsfólki Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins býðst því aukið aðgengi að faglegri aðstoð eftir undirritun samningsins og er það sönn ánægja starfsfólks Áfalla- og sálfræðimiðstöðvarinnar að starfa með Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins á komandi tímum.

Reykjavík 20. júlí 2015