Afgerandi áhrif á þroska og velferð
Umönnun barna fyrstu árin, allt frá getnaði, hefur áhrif á allt þeirra líf og gagnreyndar rannsóknir sýna að tíminn frá getnaði til tveggja ára aldurs er afgerandi fyrir þroska og velferð barna. Megináhersla Geðverndarfélags Íslands er á tilfinninga- og geðheilbrigði ungra barna en félagið verður 70 ára á morgun.
Kjartan Valgarðsson, framkvæmdastjóri Geðverndarfélags Íslands, segir að félagið hafi verið stofnað við gjörólíkar aðstæður þeim sem nú eru og um frumkvöðlastarfsemi hafi verið að ræða. Ekkert viðlíka starf eða hugsun var í gangi á þessum tíma.
Geðverndarfélag Íslands var stofnað 17. janúar 1950. Félagið var stofnað samkvæmt tillögu sem kom fram á 40 ára afmæli Læknafélags Reykjavíkur í nóvember 1949.
Á stofnfundi Geðverndarfélagsins flutti dr. Helgi Tómasson, fyrsti formaður þess, erindi um geðvernd sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1950. Þar sagði hann m.a.: „Auðvitað getur menn greint á á þessum sviðum heilbrigðisfræði eins og öðrum sviðum hennar, en um vissa hluti geta flestir sameinast, vissa hluti, sem allflestum finnast æskilegir, þó þá greini á um leiðir og þær séu oft torsóttar. Það t.d. hefur ekki verið átakalaust að berjast við sóðaskapinn, bæði utan húss og innan og mikið vantar enn á, að á honum hafi verið sigrazt eða menn komið sér saman um, hvernig það verði bezt gert. Samt sem áður dettur engum í hug annað en að halda baráttunni sleitulaust áfram og fórna til þess stórfé.
En um andlegan sóðaskap hafa menn varla þorað að ræða ennþá, hvað þá heldur að láta sér detta í hug þann möguleika að hefja baráttu gegn honum. Það á því langt í land að “mental hygiene” eða geðvernd taki sér slíkt viðfangsefni.
Aftur á móti hefur mönnum smám saman verið að lærast hvað má bjóða fólki á ýmsum aldri, hvernig má best hagnýta andans krafta, hvers um sig. Mönnum hefur smám saman verið að lærast, að hugarástand manns mótar viðhorf hans til lífsins, ræður úrslitum um, hvort maðurinn sé hamingjusamur eða óhamingjusamur. Í baráttunni gegn geðsjúkdómum, stórum og smáum, er mönnum orðið æ ljósara að aukinn skilningur almennings, aðstandenda og sjúklingsins sjálfs á eðli sjúkleikans er megin atriði til þess að fá bata og einnig oft til að fyrirbyggja að verða veikur … Heilbrigði er nú á dögum skilgreind sem andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan. Langsamlega meginhluti læknisstarfseminnar hefur miðazt við að styðja og efla svonefnda líkamlega vellíðan mannanna. Upp á síðkastið hefur og félagslegu hliðinni verið æ meiri gaumur gefinn. En til hvers væri að veita mönnum líkamlega og félagslega vellíðan ef þeir ekki gætu notfært sér hana vegna andlegra ágalla.
Geðheilbrigði skiptir því meginmáli fyrir alla menn.
Brýnustu verkefni geðverndarfélaga er að vinna að forvörnum og auknum skilningi á geðröskunum ásamt bættri meðferð og aðbúð hinna geðsjúku, sem byggir á aukinni þekkingu sem aflað er með rannsóknum og að vinna gegn fordómum sem geðsjúkir verða oft fyrir. Hluti af þessum verkefnum er að rjúfa einangrun geðsjúkra og gæta þess að þeir njóti jafnréttis á við aðra borgara,“ segir í grein Helga Tómassonar í Lesbók Morgunblaðsins.
Reksturinn barn síns tíma
Kjartan segir að eðli málsins samkvæmt hafi áherslan hjá félaginu fyrstu árin og áratugina verið á endurhæfingu. „Að koma geðsjúkum af götunni og í skjól. Það skýrir áherslu félagsins og aðkomu að uppbyggingu á Reykjalundi, vernduð heimili sem Geðverndarfélagið rak, og áfangaheimili,“ segir hann en félagið kom að uppbyggingu að Reykjalundi í samstarfi við Samband íslenskra berklasjúklinga (SÍBS).
Þegar nýju lífi var hleypt í Geðverndarfélagið fyrir tíu árum síðan rak félagið tvö vernduð heimili, annað í Breiðholti og hitt í Ásholti. Íbúarnir voru þrír á hvorum stað, þrír karlar og þrjár konur.
Félagið hafði áður rekið fleiri slík heimili en þessi tvö voru þau sem enn voru eftir í rekstri á vegum þess, segir Kjartan. „Á þessum tíma varð okkur ljóst að þessi rekstur væri barns síns tíma þar sem lagaumhverfið hafði gjörbreyst og hlutverk ríkis og sveitarfélaga orðið allt annað en það var þegar félagið var stofnað. Rökrétt niðurstaða var að fara út úr þessum rekstri og Reykjavíkurborg tók við rekstri vernduðu heimilanna og þau færð til nútímans,“ segir hann.
Að sögn Gunnlaugar Thorlacius, formanns Geðverndarfélags Íslands, voru vernduðu heimilin rekin í samstarfi við Landspítalann og áfangaheimilið í Álfalandi en þar bjuggu átta skjólstæðingar. Áfangaheimilið var ætlað fólki eftir útskrift á geðdeild og þar gat það dvalið í eitt ár og fengið þjálfun hjá starfsfólki við að fóta sig í daglegu lífi. „Þetta var millistig frá því að vera á sjúkrahúsi í að vera þátttakandi í daglegu lífi,“ segir Gunnlaug.
Áður en við lokuðum áfangaheimilinu gerðum við samning við Landspítalann um alla faglega þjónustu en heimilið var rekið af okkur. Fyrir fjórum árum var síðan tekin ákvörðun um að það væri ekki lengur hlutverk félagsins að reka slíkt heimili og því lokað, segir Kjartan.
„Í beinu framhaldi og í samræmi við upphaflega hugmyndafræði og menningu í félaginu gekk það á undan öðrum með því að opna þessi heimili. Enginn annar aðili sinnti þessu á þeim tíma,“ segir Kjartan en fyrir nokkrum árum komst stjórn félagsins, sem er að mestu skipuð fagfólki á þessu sviði, að þeirri niðurstöðu að tímabært væri að orka félagsins myndi beinast í aðrar áttir og í samræmi við hefðir félagsins einbeitir félagið sér nú að tilfinninga- og geðheilbrigði ungra barna sem það telur að sé ekki nógu vel sinnt.
Getur sparað sjö milljarða á ári
Reiknað hefur verið út að samfélagið getur sparað sér sjö milljarða árlega með því að halda vel utan um mæður á meðgöngu og börn þeirra fyrstu tvö árin. Með því að halda vel utan um mæður á meðgöngu og veita þeim sem þess þurfa aukna þjónustu í barneignarferli má spara samfélaginu umtalsverða fjármuni til lengri tíma. Sífellt eru að koma fram niðurstöður rannsókna sem sýna hve mikilvægur þessi tími er í þroska og þróun fósturs í móðurkviði og barnsins fyrstu tvö árin, að því er fram kemur á vef Geðverndarfélagsins en í grein sem Sæunn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur og sálgreinir, ritaði fyrir nokkrum árum segir:
„Af þessari upphæð eru 72% kostnaðarins vegna barnsins og fellur hann til í heilbrigðis-, félags- og menntakerfinu. Sem dæmi má nefna hegðunarvanda barna og unglinga, kvíða og átraskanir, námserfiðleika, áfengis- og vímuefnanotkun, geðraskanir, líkamlega sjúkdóma og afbrot,“ segir í grein Sæunnar.
Grunnurinn að allri velferð barnsins
Á aðalfundi Geðverndarfélagsins fyrir rúmu ári var samþykkt stefna félagsins til tíu ára. Þar segir meðal annars að gagnreyndar rannsóknir sýni að tíminn frá getnaði til tveggja ára aldurs er afgerandi fyrir þroska og velferð barna.
Nærandi og næm umönnun ungbarna er grundvallaratriði sem leggur grunninn að góðri sjálfsmynd, andlegri og líkamlegri heilsu og félagslegri velferð á fullorðinsárum. Að leggja góðan grunn í upphafi æviskeiðs í lífi barna eykur líkur á farsæld á fullorðinsárum sem stuðlar að hagsæld fyrir samfélagið allt.
Rannsóknir sýna að snemmtækur stuðningur og sálfélagsleg inngrip við fjölskyldur ungbarna kosta lítið miðað við samfélagslegan kostnað ef ekkert er að gert — niðurstaðan er sparnaður fyrir samfélagið.
London School of Economics (LSE) gaf út skýrslu árið 2014 sem sýndi að fyrir hverja krónu sem eytt er í þennan málaflokk mætti spara 30. Miðað við íslenskan raunveruleika og árlega fæðingartíðni mætti spara 7 milljarða íslenskra króna fyrir hvern árgang með því að sinna foreldrum á meðgöngu og börnum þeirra fyrstu tvö árin á fullnægjandi hátt. Það, hvernig við önnumst börn frá fæðingu til tveggja ára aldurs, ræður framtíð þeirra sem hefur í kjölfarið áhrif á framtíð samfélags okkar.
Félag fagfólks í 70 ár
Að sögn Gunnlaugar er Geðverndarfélagið ekki í klínískri starfsemi og hefur aldrei verið nema þá kannski í gegnum þessi vernduðu heimili sem voru rekin af félaginu hér áður. Félagið hefur alltaf verið félag fagfólks og stjórnin alltaf skipuð fagfólki. „Við erum mest í stefnumótun og að reyna að koma á framfæri breyttri hugsun í málefnum sem snerta geðfatlaðra. Þegar þörfin var sem mest í að tengja fólk og draga úr fordómum í garð geðfatlaðra þá vorum við þar – að gera það sýnilegra, en hugmyndafræði okkar núna snýr að því að fara í mjög snemmbærar forvarnir. Það er á fræðilegum grunni, búum til fræðsluefni, skrifum greinar, gefum út tímarit og setjum fram skoðanir á frumvörpum og fleira. Þetta er ekki alfarið stefna félagsins en þetta er stefna okkar í forvörnum og þar er meginþungi starfseminnar,“ segir Gunnlaug.
Eins og áður sagði verður Geðverndarfélag Íslands 70 ára á morgun og verður haldið upp á afmælið með hátíðarfundi fimmtudagskvöldið 23. janúar í sal Íslenskrar erfðagreiningar. Sérstakir heiðursgestir verða Eliza Reid forsetafrú og dr. Hazel Gouglas, stofnandi og stjórnandi Solihull Approach, sem tilheyrir breska heilbrigðiskerfinu (NHS) í Birmingham á Englandi.
Dr. Hazel Douglas hóf starfsferill sinn sem klínískur sálfræðingur og vann með fullorðna. Hún fékk snemma áhuga á snemmtækri íhlutun og fyrirbyggjandi heilsugæslu. Hún lagði í framhaldinu stund á nám í viðtalsmeðferð með börnum og hóf að starfa að tilfinninga- og geðheilbrigði barna. Hún hafði forystu um að þróa Solihull-aðferðina (The Solihull Approach) þar sem markmiðið er að samþætta þekkingu á tilfinningalegu heilbrigði og vellíðan við fræðslu og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks ásamt upplýsingum fyrir foreldra. Hún talar fyrir aðgengi fyrir alla að námskeiðum og fræðslu fyrir mæður á meðgöngu og nýbakaða foreldra.
Geðverndarfélagið gerði á síðasta ári samning við Solihull Approach og er fulltrúi þess á Íslandi. Með honum er félagið „Solihull Approach Licenced Center“ sem þýðir að félagið mun kynna þá þekkingu og reynslu sem SA hefur þróað á undanförnum áratugum innan breska heilbrigðiskerfisins með því að bjóða upp á námskeið sem Solihull hefur þróað og boðið upp á í Stóra-Bretlandi og víðar.
Um 200 börn í hverjum árgangi þurfa aukinn stuðning
Anna Guðríður Gunnarsdóttir MSc., hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í heilsugæsluhjúkrun, er ein þeirra sem flytja erindi á fundinum en hún hefur notað Solihull-aðferðina í starfi sínu. Kjartan segir að hún leggi áherslu á fyrsta viðtal við verðandi mæður í eftirliti á meðgöngu. Í stað þess að ræða við þær í 20 mínútur þar sem drepið er á fjöldamörgum atriðum er lagður spurningalisti fyrir verðandi mæður og rætt lengur við sumar, allt að einni klukkustund. 20 mínútur eru hvergi nærri nógur tími fyrir ljósmóður eða hjúkrunarfræðing til að átta sig á því hvort konan þurfi aukinn stuðning á meðgöngu, stuðning sem getur haft mikil áhrif á allt líf viðkomandi.
Miðað við tölur frá WHO þurfa um 5% kvenna verulegt inngrip á meðgöngu, það er þurfa á þriðja stigs þjónustu að halda, segir Gunnlaug og miðað við meðaltal barna í árgangi eru það um 200 börn á ári á Íslandi.
„Þessar fjölskyldur þurfa á verulegri aðstoð að halda. Meðal annars vegna alvarlegs vímuefnavanda, virkra alvarlegra geðsjúkdóma og alvarlegs félagslegs vanda. Síðan má bæta við 20-30% sem þurfa á aðstoð að halda.
Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt að fjölskyldumiðuð lengri viðtöl starfsmanna í mæðraeftirliti og ungbarnavernd hjálpa meirihluta foreldra með vanlíðan svo sem kvíða eða streitu í foreldrahlutverki að leysa úr sínum vanda.
Þetta er gríðarlega ódýr leið miðað við forvarnagildið og áhrifin á viðkomandi börn síðar. Ef gripið er inn strax er hægt að koma í veg fyrir mikinn vanda síðar. Hefur mikil áhrif fyrir fjölskyldur í landinu sálrænt séð og beinan kostnað sem fellur á heilbrigðiskerfið, menntakerfið og félagslega kerfið, segir Gunnlaug.
Gunnlaug og Kjartan segja að erfiðlega hafi gengið að ná þessum þremur ráðuneytum saman þegar kemur að þessu forvarnastarfi þar sem kostnaðurinn fellur á hin ráðuneytin og öfugt. Hér megi margt betur fara en þau binda vonir við að breyting sé að verða á þessu enda hafi þau sem gegna stöðu ráðherra í þessum þremur ráðuneytum nú sýnt áhuga og vilja til að bæta stöðu yngstu barnanna. Enda eigi kerfið að laga sig að einstaklingunum, ekki öfugt.
Meðal annars er verið er að þýða bók Solihull Approach: The First Five Years sem er hluti af fræðsluefni félagsins og unnið sé að því að ná samningi við sveitarfélög um að halda námskeið fyrir alla þá sem koma að starfi með börnum í viðkomandi sveitarfélögum. Fræðsla sem tryggi betra utanumhald um foreldra og börn af hálfu starfsmanna sveitarfélaga sem vinna með börnum, svo sem ljósmæður, hjúkrunarfræðingar, kennarar, lögregla, íþróttafélög, slökkvilið og fleiri.
Kjartan segir að hjá Solihull sé að finna samantekna reynslu af því að halda vel utan um mæður, nýfædd börn og fjölskyldur almennt. „Þetta miðar allt að því að vernda börn fyrir áföllum þannig að það séu meiri líkur á þau lifi farsælu lífi og lendi ekki í kerfinu með tilheyrandi kostnaði. Hugtakið „það þarf þorp til að ala upp barn“ fangar vel þessa hugsun. Að stilla saman hugmyndafræði fólks í garð barna og allir nálgist þau á sama hátt,“ segir Kjartan.
Bæði stærsta og um leið flóknasta starfið
Gunnlaug segir að þessi nálgun sé eins og stóll á þremur fótum: Þríþáttamódel gagnkvæmni í samskiptum, tilfinningalegt utanumhald (containment) og atferlismótandi nálgun.
„Solihull hefur sýnt fram á að ef þú veitir þetta tilfinningalega utanumhald, ert gagnkvæmur í samskiptum – sérð og heyrir hvað viðkomandi segir – þá þarf ekki að fara mikið í atferlismótandi aðgerðir. Við þekkjum það úr okkar kerfi að það er alltaf verið að atferlismóta. Allt frá fæðingu barns er verið að mæla hitt og þetta, svo sem hæð, þyngd, svefn og næringu og kannski ekki mikið hlustað á hvernig foreldrum líður og hvernig samskipti þeirra eru við barnið,“ segir Gunnlaug og bætir við að rannsóknir hafi sýnt það með afgerandi hætti að þessi nálgun skili verulegum árangri.
„Foreldrastarfið er ekki bara stærsta starfið sem þú tekur þér fyrir hendur heldur einnig flóknasta starfið og lítið fyrirsjáanlegt. Ef foreldri er ekki í góðu jafnvægi er flókið að eignast lítið barn. Þarft ekki að vera í sérstaklega miklu ójafnvægi til þess að þetta geti reynst erfitt. Fólk með kvíðaraskanir þarf að geta séð hlutina nokkuð fyrir sér og svefnleysi og annað getur haft mikil áhrif á líðan þeirra. Hvað þá ef þú átt erfitt með að hafa stjórn á eigin hvötum og lífi. Að búa við slíkar aðstæður fyrir ungt barn sem hefur engan möguleika á að koma sér út úr þessum aðstæðum er frekar vont. Þannig að við viljum styðja við þennan hóp foreldra og barna,“ segir Gunnlaug.
Þau segja að Geðverndarfélagið líti á það sem hlutverk sitt að auka meðvitund í samfélaginu um að þessi mál skipti máli. Þess vegna ætlum við einnig að beita okkur gagnvart almenningi og frumsýnum myndband í tengslum við það á fundinum 23. janúar. Við viljum auka skilning á því meðal almennings að þetta skipti máli og eins að hafa áhrif á stjórnmálamenn sem taka ákvarðanir hjá ríki og sveitarfélögum, segja þau og bæta við að þau hafi mikla trú á þverfaglegri vinnu með börn og taka fram að það sé ekki stjórn félagsins sem sé að halda slík námskeið heldur sé félagið bakhjarl fyrir sveitarfélög og aðra sem hafa áhuga á slíkum námskeiðum meðal annars með því að útvega sérfræðinga sem geti haldið slík námskeið.
Úr stefnu Geðverndarfélags Íslands um geðheilbrigði á Íslandi
Það, hvernig við önnumst börn frá fæðingu til tveggja ára aldurs, ræður framtíð þeirra sem hefur í kjölfarið áhrif á framtíð samfélags okkar.
Ástrík, örugg og traust samskipti barns og foreldra ásamt lærdómshvetjandi fjölskyldu og heimili, byggir upp:
- tilfinningalega vellíðan (stundum kallað geðheilbrigði barns);
- hæfni til að móta og viðhalda jákvæðum samskiptum við aðra;
- heilann og heilbrigða heilastarfsemi (um 80% af vexti heilans á sér stað fyrir þriggja ára aldur)
- móðurmálsfærni og hæfileikann til að læra, „mjúku” eiginleikarnir til að tengjast öðrum, þrífast vel og í framhaldinu fara að læra „hörð” sannindi sem varða leið að námi síðar meir. Að öllu þessu er grunnurinn lagður á fyrstu mánuðum í lífi hvers barns.
Lítill stuðningur, sérstaklega þegar barni er ekki forðað frá ofbeldi eða vanrækslu, getur haft varanleg áhrif á líf þess. Rannsóknir hafa einnig sýnt að því betur sem haldið er utan um fjölskyldur og börn sem aðstandendur geðsjúkra, t.a.m. með samtali þar sem öll fjölskyldan kemur saman, því betur líður allri fjölskyldunni og líkur minnka á að veikindi flytjist áfram til næstu kynslóðar.
Mikilvægt er að fjölskyldan einangrist ekki og reyni að fela hinn veika fyrir umheiminum. Sýnt hefur verið fram á að áföll af ýmsum toga geta haft margþætt áhrif á lífsskilyrði og lífsgæði. Það hefur komið í ljós á síðustu áratugum að börn geta upplifað áföll (relational trauma) vegna álags og veikinda innan fjölskyldunnar. Þessi áföll eru ekki alltaf sýnileg öðrum þar sem þau eiga sér stað innan veggja heimilis og hafa þess vegna verið kölluð „hinn þögli faraldur“. Komið hefur í ljós að afleiðingar slíkra áfalla geta verið langvinn og haft í för með sér „bresti“ í bæði andlegri og líkamlegri heilsu.
Alvarleg áföll í bernsku, þegar heilinn er enn í mótun, hafa almennt meiri áhrif en þau sem við verðum fyrir síðar á lífsleiðinni og því er mikið fengið með því að forða börnum frá því að lenda í erfiðum aðstæðum og minnka skaðann með snemmtækum stuðningi og inngripum.
Geðverndarfélag Íslands telur að til þess að bæta aðstæður barna í íslensku þjóðfélagi fyrstu árin þurfi að:
- stytta vinnuvikuna til að foreldrar fái meiri tíma með börnum sínum,
- lengja fæðingarorlof í 18 mánuði, eða brúa bilið með heimgreiðslum til foreldra sem það kjósa,
- styrkja fagþekkingu starfsfólks leikskóla og ráða fleiri leikskólakennara í stað ófagmenntaðs starfsfólks,
- auka skilning og þekkingu stjórnmálamanna á mikilvægi fyrstu áranna í lífi hvers barns,
- stofna Fjölskylduhús í samstarfi heilsugæslu, sveitarfélags og velferðarsamtaka þar sem fjölskyldur og börn geta hist og átt samskipti til að auka tengsl og haft aðgang að fagfólki þegar á þarf að halda
Geðverndarfélagið telur einnig að mynda eigi stuðningshópa fyrir börn og unglinga sem eiga geðveika foreldra sem heilsugæslan/Fjölskylduhús haldi utan um.
Geðverndarfélagið telur brýnt að ítarlegar rannsóknir verði framkvæmdar á aðstæðum barna á Íslandi í samvinnu við háskóla landsins, að því er fram kemur í stefnu félagsins.
Greinin birtist á mbl.is 16.01.2020